Fréttir
Frá óvissu til árangurs kemur út
11. september 2024
Út er komin bókin “Frá óvissu til árangurs: Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir” eftir Þorstein Siglaugsson.
Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Háskóla Íslands segir um enska útgáfu bókarinnar “Ritið vísar stjórnendum til skynsamlegra lausna í glímu við vandamál sem í fyrstu virðast ill-leysanleg. Þorsteinn lýsir vel öguðu þrepskiptu verkferli röklegrar greiningar sem dregur fram eðli vandans hverju sinni. Góð tengsl við raunhæf dæmi í megintexta og viðauka gagnast lesanda í stjórnunarstarfi afar vel. Nálgun Þorsteins er bæði frumleg og skýr og jafnframt raunhæf og spennandi.”
Bókin, sem snýst um að beita röklegu hugsanaferli á hversdagsleg viðfangsefni, hefur áður komið út á ensku og er fáanleg á Amazon, þar sem hún hefur hlotið feikilega góða dóma, eða 4 og hálfa stjörnu af 5 í vel á annað hundrað umsögnum.
Hægt er að nálgast bókina í rafbókarformi og sem kilju á Amazon, en fljótlega mun hún koma í helstu verslanir.
Útgáfusamningur undirritaður
30. apríl 2024
Fyrsti útgáfusamningur Mjaldurs útgáfu var undirritaður þann 30. apríl 2024, milli útgáfunnar og Þorsteins Siglaugssonar, en Mjaldur mun gefa út bók Þorsteins “Frá einkennum til orsaka” á haustmánuðum 2024.
Bókin, sem snýst um að beita röklegu hugsanaferli á hversdagsleg viðfangsefni, hefur áður komið út á ensku og er fáanleg á Amazon, þar sem hún hefur hlotið feikilega góða dóma, eða 4 og hálfa stjörnu af 5 í vel á annað hundrað umsögnum.
Þorsteinn Siglaugsson er frumkvöðull, rithöfundur og kennari sem hefur starfað við hugbúnaðargerð, stefnumótunarráðgjöf og árangursstjórnun.
Á myndinni má sjá Þorstein (til vinstri) og Magnús Skjöld fyrir hönd útgáfunnar, undirrita útgáfusamninginn.
Ný bók á leiðinni
6. apríl 2024
Þann 1. júlí kemur út bókin Svo langt frá heimsins vígaslóð; Lýðveldið Ísland í samhengi, eftir dr. Magnús Skjöld. Í bókinni fjallar Magnús um hina flóknu og fjölbreyttu þætti sem móta heiminn á þriðja áratug 21. aldarinnar, með sérstakri áherslu á hlutverk og stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Höfundur ávarpar mikilvægi þess að skilja "stóru myndina" í tengslum við Ísland, og hvernig hnattvæðing og alþjóðlegar áskoranir, svo sem breytingar í öryggismálum, mannúðarmálum, og umhverfismálum, hafa áhrif á lítið þjóðríki eins og Ísland.
Farið er í gegnum þróun íslenska ríkisins frá fullveldi til velferðarsamfélags. Í því samhengi er fjallað um stríð og öryggismál, átökin í Úkraínu, stríðsátökin í Mið-Austurlöndum, mannréttindamál, rasisma og stöðu fólks á flótta, sem og hamfarahlýnun og önnur risavaxin viðfangsefni. Bókin veltir upp þeim áskorunum og tækifærum sem samtíminn býr yfir.
Hægt er að forpanta bókina á Amazon.com.
YTIK fær nýtt útlit
Bókin How I Became the Yoga Teacher in Kabul hefur nú fengið nýtt útlit í annarri útgáfunni, sem kom út á Amazon 31. mars 2024. Það er ítalski hönnuðurinn Irene Giua sem ber ábyrgð á hinu nýja útliti, sem er minimalískt og í anda þeirra bókarkápa sem hún hefur áður hannað fyrir Mjaldur útgáfu.
Bókin er einnig lítillega uppfærð.
Borgríkið kemur út á ensku
29. mars 2024
Þann 14. mars 2024 kom ensk þýðing á bókinni Borgríkið eftir Magnús Skjöld út á vegum Mjaldurs útgáfu, en íslenska útgáfan var gefin út af Háskólanum á Bifröst haustið 2020. Nýja útgáfan, sem ber nafnið City State er uppfærð og í henni er að finna ný viðtöl, sérstaklega við nýja íbúa höfuðborgarinnar. Bókin fæst í rafbókarformi og kiljuformi á Amazon og eintök af henni eru á leiðinni til landsins og verða fáanleg í sérvöldum bókaverslunum.
Bókin er kjörin gjöf til þeirra sem ekki lesa íslensku, en vilja kynna sér sögu og menningu höfuðborgarsvæðisins, þróun þess og vöxt, náttúru og stjórnmálalíf.
Höfundur bókarinnar, Dr. Magnús Skjöld, er dósent við Háskólann á Bifröst og hefur skrifað um borgarmál og sveitarstjórnarmál á alþjóðlegum fræðavettvangi í yfir áratug.